Landsbankinn mælir með kaupum í Marel í afkomuspá sem birtist í gær en áður hafði verið mælt með að fjárfestar „haldi“ bréfum í félaginu.

Tólf mánaða markgengi félagsins er talið 121,2 en markaðsgengið var 92,5 við lok markaðar í gær, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis, og er munurinn 31%.

Í verðmatinu kemur fram að í kjölfar hárra markmiða árið 2006 um kraftmikinn vöxt hefur Marel náð 15-16% markaðshlutdeild með kaupum á þremur fyrirtækjum og eykur veltuna á sama tíma fimmfalt. Greiningardeild telur að félagið geti orðið leiðandi á sínum markaði.

Þar segir einnig að sameiningin við Scanvægt hafi reynst erfiðari en búist var við. Marel og Scanvægt hafi háð harða samkeppni og vöruframboð þeirra skarast umtalsvert. Aukin heldur sogaði endurskipulagningin á fyrirtækinu meira til sín af hagnaðarframlegðinni en búist var við, en leiða má líkur að því að það versta sé afstaðið.

Stork Food Systems, sem er vel rekið fyrirtæki, passar sérstaklega vel við Marel. Vöruframboðið skarast lítið þar sem fyrirtækin einbeittu sér að mismunandi áföngum í virðiskeðjunni.