Greiningardeild Landsbankans mælir með kaupum í Straumi-Burðarási og að fjárfesta yfirvogi bréfin, í vel dreifðu safni. Metur hún markgengið á 23,6. Markaðsgengið er 20,5, samkvæmt upplýsingum frá M5.

"Kennitölur Straums virðast nokkuð hagstæðar. Ekki er hægt að bera kennitölur Straums við innlendu viðskiptabankana. Mikill munur er á starfsemi bankanna og eðli eiginfjárbindingar og teljum við að V/I hlutfall Straums eigi að vera talsvert lægra en hjá viðskiptabönkunum.

Áætlað V/I hlutfall Straums er nú um 1,3, en 1,2 miðað við áætlun okkar um eigið fé í árslok 2007. V/H miðað við hagnaðarspá okkar fyrir 2007 er 9,4 og fyrir 2008 8,8 sem verður að teljast nokkuð hagstætt," segir greiningardeildin.

Hún segir Straumur-Burðarás ætli sér stóra hluti á næstu árum og hafa arðsemismarkmið verið hækkuð samhliða nýjum markmiðum. "Stjórnendur komu á óvart á síðasta ári með því að ná öllum framsettum markmiðum og höfum við trú á að flest ný markmið bankans náist einnig á næstu árum," segir greiningardeildin.