Vinnslustöðin hefur fengið nýtt verðmat frá greiningardeild Kaupþings banka og er mælt með sölu í félaginu.

Fyrirtækið er verðmetið á 4,5 milljarða sem gefur gengið 3 en gengi félagsins er 4 lok dags.

Vænt gengi félagsins (e. target price) er 3,3 að mati greiningardeildarinnar.

Greiningardeild gerir ráð fyrir því að loðnukvótinn verði ekki aukinn og því verði rekstrarniðurstaða fyrsta ársfjórðungs, sem og ársins í heild, mun verri en í fyrra.

Greiningardeildin gerir ráð fyrir 33% samdrætti í tekjum frá fyrsta ársfjórðungi í fyrra og að EBITDA félagsins á tímabilinu verði 226 milljónir króna miðað við 453 milljón króna EBITDA á fyrsta ársfjórðungi 2005.

Hún spáir einnig að hagnaður félagsins á fyrsta ársfjórðungi dragist saman um 95% milli ára og verði 22 milljónir króna.

Verðmatið er unnið eftir sjóðstreymisaðferð og er gerð 11,2% ávöxtunarkrafa til eigin fjár félagsins og er veginn meðalkostnaður fjármagns (WACC) 7,3%.

Verðmatið notast við þrískipt verðmatslíkan þar sem ekki er gert ráð fyrir að vöxtur eftir árið 2020 skili umframarðsemi til hluthafa.