Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, segist ekki skilja verðmat tæknifyrirtækja um þessar mundir. Orðin lét hann falla í viðtali við fréttamiðilinn Axios.

Gengi bréfa í Apple og Facebook hefur hækkað um ríflega 20% á árinu. Á sama tíma hefur Amazon hækkað um 13% og Netflix um 15%.

Mnuchin var beðinn um að skýra álit sitt tæknifyrirtækjum. Hann vildi ekki tjá sig um einstök fyrirtæki, en sagðist þó ekki skilja alveg hvernig Snapchat gæti verið með hærra markaðsvirði en Target og CBS.

Hann bætti þó við að börnin sín væru virkir notendur og að varan væri greinilega vinsæl. Auk þess benti hann á að gagnrýnendur hefðu haft rangt fyrir sér varðandi Intel á sínum tíma.