Verslunin Moa mun opna í Smáralind á morgun, en Moa er franskt vörumerki og selur ódýrar tískuvörur.

„Þetta eru ódýrar vörur, frá átta hundruð og upp í tólf þúsund. Það eru engar vörur sem  fara yfir tólf þúsund í verði,“ segir Þorsteinn Máni Bessason, annar eigenda verslunarinnar. Hann rekur verslunina ásamt Önnu Bryndísi Gunnlaugsdóttur frænku sinni.

Þau Þorsteinn Máni og Anna Bryndís verða án efa með yngri verslunareigendum í Smáralindinni en þau eru bæði 25 ára gömul. „Ég myndi halda það, í það minnsta yngstu sérleyfishafarnir,“ segir Þorsteinn í samtali við VB.is.

Undirbúningurinn að opnun Moa í Smáralind hófst í janúar síðastliðnum. „Við fórum út í byrjun janúar, fórum á fund hjá þeim og kynntum hvað okkur langaði til að gera,“ segir Þorsteinn. „Við eiginlega fengum umboðið á staðnum,“ bætir hann við.