Móberg ehf. hagnaðist um 4,3 milljónir árið 2015. Það er talsverður viðsnúningur á rekstri, en árið 2014 tapaði fyrirtækið tæpum 48 milljónum.

Afkoma fyrirtækisins fyrir fjármagnstekjur og gjöld nam 10,1 milljón árið 2015 en var neikvæð um 45 milljónir árið áður. Afkoma af aðalsstarfsemi fyrirtækisins fyrir skatta nam 4,3 milljónum árið 2015 en tap var um 48 milljónir árið áður.

Eignir Móbergs í lok árs 2015 námu 812 milljónir samanborið við rúmar 647 milljónir árið áður. Eigið fé Móberg í lok árs 2015 var neikvætt um 49 milljónir en það var neikvætt um 53 milljónir árið áður.

Skorri Rafn Rafnsson er stærsti eigandi Móbergs en hann á 96,8% hlut í fyrirtækinu. Móberg keypti fyrirtækin Hópkaup og Leit.is á árinu eins og áður hefur verið greint frá á Viðskiptablaðinu. Bæði fyrirtækin voru seld á þessu ári.

Þar er haft eftir Skorra Rafni að stefna fyrirtækisins sé að þróa þrjú til sex ný fyrirtæki á hverju ári. Móberg var stofnað árið 2012.