Fjármálaeftirlitið í Svíþjóð hefur vísað máli á hendur sænska fjármála- og tryggingafyrirtækinu Moderna til efnahagsbrotadeildar lögreglunnar.

Milestone, sem er í eigu Karls Wernerssonar og fjöslkyldu, á Moderna en innan sænska fyrirtækisins eru bæði Sjóvá og Askar Capital.

Málið snýst um sölu Moderna á um 7,5% hlut í fjármálafyrirtækinu Carnegie.

Hinn 8. október tilkynnti Moderna að eignarhluti þess í Carnegie hefði lækkað úr 17,6% í 10,1% en aðeins tveimur vikum síðar lagði Carnegie fram slæmt árshlutauppgjör en í því var um einn milljarður sænskra króna, jafngildi um 16,6 milljarða íslenskra króna, færður á afskriftareikning vegna yfirvofandi útlánatapa, að því er fram kemur í frétt á vef Dagens Industri (DI).

Við birtingu uppgjörsins snarféll gengi bréfa Carnegie og fyrirtækið varð síðan í kjölfarið að fá neyðarlán frá sænska seðlabankanum.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .