Sigríður Sæland Jónsdóttir, móðir Ingu Sælands, formanns Flokks fólksins og þingmanns, lagði Tryggingastofnun ríkisins (TR) í Landsrétti í dag. Afleiðingar dómsins eru þær að ríkið mun þurfa að greiða lífeyrisþegum almannatryggingakerfisins samtals um fimm milljarða króna.

Málið varðaði uppgjör á ellilífeyrisgreiðslum almannatrygginga en Sigríður hafði krafið ríkið um rúmlega 41 þúsund krónur. Ellilífeyrir hennar hafði verið skertur vegna greiðslna sem Sigríður hafði fengið úr lífeyrissjóði sínum.

Krafa hennar byggði á því að í október 2016 samþykkti Alþingi lög um breytingar á lögum um almannatryggingar og fleiri lögum. Fyrir mistök við lagasetninguna var vísað í rangan staflið í einu ákvæði laganna en sú breyting á texta laganna fól í sér að skerðing á almannatryggingagreiðslum vegna lífeyrisgreiðslna var ekki lengur heimil.

Í febrúar 2017 samþykkti Alþingi lög sem leiðrétti þessi mistök. Lögin voru látin gilda afturvirkt til 1. janúar en þann dag hafði fyrrgreind lagabreyting tekið gildi. TR hafði greitt úr almannatryggingum líkt og lögin áttu að vera en ekki eins og lögin voru. Hefði hið síðarnefnda verið gert þá hefði kostnaðarauki ríkisins vegna þess verið um 2,5 milljarður mánuð hvern eða samtals fimm milljarðar vegna janúar og febrúar það ár.

Í héraði var ríkið sýknað af kröfum Sigríðar meðal annars á þeim grunni að gripið hefði verið inn í með nægilega snöggum hætti og mistökin leiðrétt. Þá var því einnig hafnað að hún hefði öðlast réttmætar væntingar til greiðslunnar meðal annars með vísan til þess að hún varð ekki fyrir óhagræði vegna þessa og ekki gerði hún athugasemdir við greiðsluáætlun sína í upphafi árs.

Uppfært 16.14 Dómur Landsréttar hefur nú verið birtur. Í honum kemur fram að eftir að lögin tóku gildi 1. janúar hafi Sigríður átt kröfu um að fá ellilífeyri sinn greiddan án skerðingar vegna greiðslna úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Sú krafa hafi lifað allt þar til síðari lögin voru sett og hafi hún verið varin af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Ekki væri unnt að skerða þau réttindi með afturvirkri og íþyngjandi löggjöf.