Gengi hlutabréfa ísraelska lyfjafyrirtækisins Teva, hefur lækkað um 17,8% það sem af er degi eftir að fyrirtækið birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung. Teva sem er móðurfélag Actavis á Íslandi skilaði 6 milljarða dollara tapi á tímabilinu samanborið við 254 milljóna dollara hagnað á sama tímabili í fyrra. Financial Times greinir frá.

Stærstur hluti tapsins kom til vegna virðisrýrnunar upp á 6,1 milljarð dollara á samheitalyfjastarfsemi félagsins í Bandaríkjunum sem samanstendur meðal annars af samheitalyfjastarfsemi Allergan, sem Teva keypti á síðasta ári fyrir 40,5 milljarða dollara. Var Actavis á Íslandi undir samheitalyfjastarfsemi Allergan.

Teva greindi einnig frá því að væntanlegar arðgreiðslur til eigenda félagsins yrðu lækkaðar um 75%. Hlutabréf félagsins hafa átt undir högg að sækja á undanförnum misserum en á síðustu tólf mánuðum hefur gengi bréfa félagsins lækkað um 56%.