Teva Pharmaceutical Industries, ísraelskt móðurfélag Actavis, tilkynnti í gær að félagið myndi segja upp 7.000 starfsmönnum fyrir lok ársins og loka eða selja 15 verksmiðjur á næstu tveimur árum. Félagið hefur ákveðið að ráðast í umfangsmiklar hagræðingaaðgerðir. Þetta kemur fram í frétt Philly.com.

Eins og greint var frá í gær birti Teva uppgjör fyrir annan ársfjórðung. Teva skilaði 6 milljarða Bandaríkjadala tapi samanborið við 256 milljóna Bandaríkjadala hagnað árið áður. Stærstur hluti tapsins kom til vegna virðisrýrnunar upp á 6,1 milljarð Bandaríkjadala á samheitalyfjastarfsemi félagsins í Bandaríkjunum sem samanstendur meðal annars af samheitalyfjastarfsemi Allegran, sem Teva keypti á síðasta ári fyrir 40,5 milljarða Bandaríkjadali.

Gengi hlutabréfa Teva hafa lækkað um 24 prósentustig síðan að tilkynnt var um afkomu félagsins á öðrum ársfjórðungi.

Í desember í fyrra lét Sigurður Óli Ólafsson af störfum sem forstjóri samheitasviðs Teva Pharmaceutical Industries.  Sigurður hafði starfað sem forstjóri frá árinu 2014. Dipankar Bhattacharjee tekur við stöðu Sigurðar á fyrsta ársfjórðungi ársins 2017.