Egg ehf., móðurfélag bílaumboðsins BL, keypti 65% hlut í Ísorku á síðasta ári og fer nú með 89% hlut í fyrirtækinu sem sérhæfir sig í sölu og rekstri hleðslustöðva fyrir rafbíla. Þetta má lesa út úr nýjasta ársreikningi Ísorku.

Í ársreikningi Eggs, sem gerir upp í evrum, kemur fram að fjárfestingin hafi numið 1,2 milljónum evra, eða um 170 milljónum króna á gengi dagsins. Egg, sem átti fyrir 24% hlut í Ísorku, bókfærði 89% eignarhlut sinn í fyrirtækinu á ríflega 1,8 milljónir evra í árslok 2021 eða um 262 milljónir króna miðað við gengi evrunnar í lok síðasta árs.

Ísorka, sem var stofnuð af Sigurði Ástgeirssyni, framkvæmdastjóra félagsins, og Jóni Þóri Frantzsyni, forstjóra Íslenska gámafélagsins, hóf formlega starfsemi í árslok 2016 og var fyrst fyrirtækja á Íslandi til að hefja gjaldtöku fyrir hleðslu á hleðslustöðvum.

Velta Ísorku nam 392,5 milljónum á síðasta ári, sem er 40% aukning frá fyrra ári. Á heimasíðu félagsins segir að virkir notendur hafi á síðasta ári verið orðnir fleiri en 10 þúsund talsins og þá voru 1.700 hleðslustöðvar í rekstri. Félagið hagnaðist um 36,9 milljónir eftir skatta á síðasta ári samanborið við 12,6 milljónir árið 2020.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 4.495 kr. á mánuði