*

þriðjudagur, 1. desember 2020
Innlent 19. október 2020 09:38

Móðurfélag Bláfugls stefnir á markað

Nýtt móðurfélag fragtflugfélagsins Bláfugls stefnir á skráningu í Kauphöll Lundúna. Heimsfaraldurinn hefur hægt á áformunum.

Ritstjórn
Nýir eigendur Bláfugls ætla sér að stækka og efla félagið.
Aðsend mynd

Ætlun nýrra eigenda íslenska fragtflugfélagsins Bluebird Nordic, eða Bláfugls, er að stækka og efla félagið, en heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur sett þau áform á bið. Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Stein Loga Björnsson fráfarandi framkvæmdastjóra Bluebird Nordic í Flugvarpinu, nýju hlaðvarpi um flugmál. 

Lítháska félagið Avia Solutions Group keypti Bluebird Nordic fyrr á þessu ári og ætlaði sér að stækka félagið ásamt öðrum félögum í samstæðunni. Ætlunin var svo að setja móðurfélagið á markað í kauphöllinni í Lundúnum.

Nýja móðurfélag Bláfugls á nokkur farþegaflugfélög, meðal annars hið tékkneska Smartwings, og hefur samstæðan því ekki farið varhluta af áhrifum faraldursins. Félagið á einnig fragtflugfélagið Chapman Freeborn og voru kaup móðurfélagsins á Bláfugli liður í að auka umsvif félagsins á sviði fragtflugs í aðdraganda skráningar þess á markað í kauphöll Lundúna.

ASG gekk frá 300 milljóna dollara skuldafjárútboði í desember, jafnvirði um 42 milljarða króna, sem til stóð að nýta til kaupa á flugvélum og fyrirtækjum í fluggeiranum. Félagið velti 1,5 milljörðum evra, jafnvirði um 240 milljarða króna á síðasta ári.

Sjá einnig: Seljendur Bláfugls greiða út 1,9 milljarða 

Steinn Logi hefur lengi verið viðloðandi flugrekstur og fer í þættinum meðal annars yfir aðdragandann að sölu félagsins. Hann segist álykta sem svo að nýir eigendur væru ekki að kaupa íslenskt flugrekstrarskírteini ef þeir ætluðu sér að fara með félagið eitthvert annað. Hins vegar geti breyttar aðstæður auðvitað kallað á öðruvísi rekstur.

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði nýverið um greiddu seljendurnir Bláfugls út 1,9 milljarða króna eftir sölu flugfélagsins. Steinn Logi átti helmingshlut í félaginu á móti eigendum Air Atlanta.

Þeir keyptu félagið af Íslandsbanka árið 2014. Íslandsbanka hafði gengið erfiðlega að selja Bláfugl. Félagið var fyrst auglýst til sölu í opnu söluferli í febrúar 2012 en viðræðum við hæstbjóðanda var slitið þegar ekki tókst að ljúka fjármögnun kaupanna. Mikið tap var á rekstrinum árin 2012 og 2013. Steinn Logi sagði í viðtali við Morgunblaðið á síðasta ári að nýir eigendur hefðu breytt stefnu félagsins sem strax skilaði árangri þar sem hagnaður var af rekstrinum árið 2014.