Samkeppniseftirlitið hefur birt ákvörðun þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að Byko hafi brotið gegn samkeppnislögum og EES-samningnum með umfangsmiklu ólögmætu samráði við gömlu Húsasmiðjuna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni.

Þar segir að brot Byko hafi meðal annars falist í reglubundnum, yfirleitt vikulegum, samskiptum við gömlu Húsasmiðjuna um verð, birgðastöðu og fleira í því skyni að hækka verð eða vinna gegn verðlækkunum á grófvörum. Einnig hafi verið verið haft samráð um að hækka verð í öllum tilboðum á grófvöru í áföngum, hækka verð á miðstöðvarofnum og að vinna gegn verðsamkeppni í sölu á gagnvörðu timbri (pallaefni) á aðalsölutíma þeirrar vöru og reyna þess í stað að hækka verð.

Þá hafi Byko gert sameiginlega tilraun með gömlu Húsasmiðjunni til að fá Múrbúðina til að taka þátt í samráði um verð á grófvöru og með því að hafa ákveðið með Byko að fylgjast með aðgerðum Múrbúðarinnar á markaðnum.

Samkeppniseftirlitið segir brot Byko mjög alvarleg og þau hafi verið framin af ásetningi. Þau hafi verið til þess fallin að valda húsbyggjendum og almenningi öllum umtalsverðu tjóni. Sektin sé lögð á móðurfélag Byko til þess að stuðla að því að brot af þessu tagi verði ekki framin innan þeirrar samstæðu sem Byko tilheyrir.

Sektar líka Steinull

Í ákvörðun sinni kemst Samkeppniseftirlitið einnig að þeirri niðurstöðu að Steinull hafi brotið gegn skilyrðum í ákvörðun samkeppnisráðs nr. 19/2002, m.a. með því að veita Húsasmiðjunni upplýsingar um viðskiptakjör Múrbúðarinnar, og leggur 20 milljóna króna sekt á fyrirtækið.

Fram kemur að brotin tengist ekki núverandi rekstraraðilum Húsasmiðjunnar.

Þann 9. apríl 2015 var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjaness í sakamáli sem embætti sérstaks saksóknara höfðaði gegn starfsmönnum Byko og Húsasmiðjunnar. Samkeppniseftirlitið segir að þeim dómi hafi nú verið áfrýjað til Hæstaréttar og hann hafi ekki áhrif á niðurstöðu stofnunarinnar.