Century Aluminum, móðurfyrirtæki Norðuráls, sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem félagið fagnar ákvörðun Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, um að leggja til að tollamúr rísi um Bandaríkin þegar kemur að álafurðum. Um er að ræða 10% toll á álafurðum en auk þess leggur forsetinn til 25% toll á innfluttu stáli að því er BBC greinir frá .

Í fréttatilkynningu frá félaginu er haft eftir Michael Bless, forstjóra og stjórnarformanni Century Aluminum, að skuldbinding forsetans sé afar mikilvæg fyrir bandarískan áliðnað. Að djörf forysta forsetans efli þjóðaröryggi landsins og jafni leikvöllinn fyrir starfsmenn í áliðnaði í Bandaríkjunum.

Raunar hefur móðurfélag Norðuráls barist fyrir því að tollar yrðu settir á í Bandaríkjunum að minnsta kosti síðan á síðasta ári að því er kemur fram í frétt Daily Mail . Century Aluminum hefur talið viðskiptahætti Kínverja í álframleiðslu ósanngjarna en kínversk stjórnvöld hafa niðurgreitt álframleiðslu þar í landi.

Bandaríkin lögðu fram kæru gegn viðskiptaháttum Kínverja fyrir Alþjóðaviðskiptastofnuninni og líta margir á innleiðingu tolla sem merki um að deilurnar séu að fara á næsta stig.

Tollmúr á áli í Bandaríkjunum mun þó ekki aðeins hafa áhrif á Kínverja heldur einnig lönd á borð við Kanada. Óvíst er hvaða áhrif tollar á áli í Bandaríkjunum geta haft á almarkaði en í Evrópu eru nú þegar 3-7,5% tollar á álafurðir en þeir ná til landa utan EES svæðisins. Kanada er þó með fríverslunarsamning við Evrópusambandið.

Íslensku álverin selja sitt ál fyrst og fremst á markaði í Evrópu og því mun tollamúr í Bandaríkjunum ekki hafa bein áhrif. Komi hins vegar til þess að álframleiðendur selji í auknum mæli framleiðslu sína til Evrópu gæti komið til verðlækkana á þeim markaði.