*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Erlent 1. apríl 2021 15:12

Móðurfélag UFC á markað og Musk í stjórn

Endeavor stefnir að skráningu á markað og hyggst nota hluta af fjármagninu úr útboðinu til að kaupa afganginn af hlutafé UFC.

Ritstjórn
Gunnar Nelson hefur barist þrettán sinnum innan UFC samtakanna. Elon Musk er hér á hægri hönd.
Aðsend mynd / EPA

Endeavor Group, móðurfélag bardagasamtakanna UFC, hyggst fara á markað í Bandaríkjunum. Í útboðslýsingunni kemur fram að Elon Musk, stofnandi Tesla, verði tilnefndur í stjórn fyrirtækisins. Financial Times greinir frá. 

Endeavor var stofnað sem umboðsskrifstofa árið 1995. Félagið sameinaðist umboðsskrifstofunni William Morris Agency árið 2009, sem hefur haft Rihanna og Charlize Theron meðal skjólstæðinga. Endeavor keypti síðar íþróttaumboðskrifstofuna IMG fyrir 2,4 milljarða dala árið 2013. Félagið er í dag stærsta umboðsskrifstofan í Hollywood en ásamt því á það Miss Universe fegurðarsamkeppnina. 

Endeavor leiddi hóp fjárfesta sem keypti UFC fyrir rúma fjóra milljarða dala árið 2016. Hlutur Endeavor nam 50,1%. Fyrirtækið hyggst nota hluta af fjármagninu úr útboðinu til að kaupa hinn 49,9% hlutinn í bardagasamtökunum. 

Fyrirtækið ætlaði sér að fara á markað árið 2019 en hætti síðar við, meðal annars vegna áhyggja fjárfesta af flóknu eignarhaldi á UFC. Kann það að útskýra fyrirhuguð kaup Endeavor á öllu hlutafé UFC. 

Tekjur félagsins drógust saman um 24% á síðasta ári og námu 3,5 milljörðum dala á síðasta ári. Skýrist það aðallega af heimsfaraldrinum sem hafði gífurleg áhrif á skemmtanaiðnaðinn.

Stikkorð: UFC Elon Musk Endeavor Miss Universe