Móeiður Kara Óladóttir í Tjarnarskóla bar sigur úr býtum í keppni einstaklinga í Raunveruleik Landsbankans. Skólinn var sigurstranglegur enda náði Lækur bestum árangri í bekkjakeppninni. Öðru og þriðja sætinu í einstaklingskeppninni deildu svo á milli sín þær Andrea Björk Auðunsdóttir, sem sömuleiðis er í Tjarnarskóla, og Erla Marý Sigurpálsdóttir, nemandi í Grunnskóla Fjallabyggðar, Ástæðan fyrir því að þær sitja saman í sætinu er sú að þær voru jafnar að stigum.

Raunveruleikurinn er gagnvirkur hermileikur og hannaður sem fjármála- og neytendafræðsla fyrir efstu bekki grunnskóla.

Fram kemur í tilkynningu frá Landsbankanum að þátttakendur voru rúmlega 800 úr 49 skólum um land allt. Raunveruleikurinn hófst þann 18. febrúar sl. og stóð yfir í fjórar vikur.

Í Raunveruleiknum fá nemendur að kynnast þeim ákvörðunum sem einstaklingar þurfa að taka í lífinu, s.s. að stunda nám, leita sér að vinnu, leitast við að ná endum saman á þeim launum sem bjóðast á almennum vinnumarkaði og bregðast við því sem á daga þeirra drífur. Í Raunveruleiknum eru mældar ýmsar hagstærðir í samfélaginu líkt og um alvöru væri að ræða, t.d. verðbólga, atvinnuleysi og sparnaður.