Morgunblaðið hóf á miðnætti í gær sérstaka iPad áskriftarsölu og hefur látið hanna sérstakt snjallforrit (e.app) fyrir spjaldtölvurnar vinsælu. Tilboðið er þó takmarkað við háskólanema eingöngu, en þeim býðst nú að kaupa iPad 3 á 30 mánuðum vaxtalaust samhliða rafrænni áskrift að blaðinu.

Þetta er í fyrsta sinn á Íslandi sem áskrifendum dagblaðs býðst að kaupa áskrift eingöngu í gegnum spjaldtölvur. Hingað til hafa áskrifendur dagblaðanna, þ.e. Morgunblaðsins, DV og Viðskiptablaðsins, fengið prentútgáfu af viðkomandi blaði auk þess að geta sótt pdf útgáfu á vef blaðanna.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins stendur einnig til að bjóða innan skamms sérstaka iPad áskrift fyrir þá sem þegar eiga spjaldtölvuna vinsælu, en þannig munu áskrifendur eingöngu fá blaðið í gegnum hið nýja snjallforrit en ekki prentútgáfu blaðsins.

Óskar Magnússon, útgefandi Morgunblaðsins, var í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu í síðustu viku. Þar var Óskar m.a. spurður út í samkeppnina á blaðamarkaði og þær ógnanir eða tækifæri sem liggja í frekari tækniþróun.

„Það eru [...] auðvitað blikur á lofti í tækninni og við munum sýna tennurnar þar áður en langt um líður,“ sagði Óskar meðal annars.

Blaðamaður Viðskiptablaðsins minnti á að mörg erlend dagblöð væru hætt að prenta blöð sín og dreifðu þeim þess í stað rafrænt. Í framhaldinu var Óskar spurður hvernig hann sæi það fyrir sér.

„Það mun gerast einhvern tíma að blöðum verði dreift meira rafrænt, þó dauði dagblaðanna sé ekki yfirvofandi í bráð,“ sagði Óskar.

„En tækninýjungar eru ekki endilega ógn við dagblöð í sjálfu sér. Ef þú losnar við að prenta og dreifa blaði, sem kostar gífurlega fjármuni, þá er það í sjálfu sér alveg frábært og væntanlega hægt að nota fjármagnið í að gera þjónustuna betri á rafrænan hátt. [...] Við erum núna með spjaldtölvur á borð við iPad, sem hefur annað hlutverk en hefðbundin fartölva. Þar liggja mikil tækifæri, t.d. í snjallforritum og við höfum séð mörg erlend blöð nýta sér það til að þjónusta viðskiptavini sína. Þegar hægt er að búa til ákveðinn pakka með tiltekinni þjónustu í snjallforriti ertu kominn með vöru sem fólk er tilbúið til að kaupa — jafnvel í stað þess að fá prentað blað inn um lúguna á morgnana. Þarna liggja tækifærin. Bara það að lesa pdf útgáfu af blaði í gegnum iPad er allt önnur upplifun en að lesa pdf útgáfu á fartölvu.“