*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 6. október 2016 16:57

Mogginn kaupir Andrés Önd

Útgáfufélag Morgunblaðsins kaupur Eddu - útgáfu sem gefur út Andrés Önd og útvarpsstöðvarnar Retró og K100.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Útgáfufélag Morgunblaðsins og mbl.is, Árvakur, hefur keypt bæði allan útvarpsrekstur Símans sem og allt hlutafé í Eddu - útgáfu ehf. sem gefur út Andrés Andarblöðin ásamt öðru efni frá Disney. Þetta kemur fram í frétt á mbl.is.

Með kaupunum á útvarpsrekstri Símans tekur félagið yfir rekstur útvarpsstöðvanna K100 og Retro, en fyrst um sinn verður útsendingum þeirra haldið úti frá núverandi stúdíói í Ármúlanum.

Disney útgáfan komin í hendur Morgunblaðsins

Með kaupunum á hlutafé Eddu - útgáfu mun fyrirtækið taka yfir útgáfu á Andrés Andarblöðunum, myndasögubókunum Syrpu ásamt áskriftarklúbbunum Disney kríli og Disney-klúbbnum.

Kaupin munu koma til framkvæmda að fengnu leyfi Samkeppniseftirlitsins en kaupverðið er trúnaðarmál.

Tækifæri í að tengjast Disney

„Með kaupum á Eddu – útgáfu ehf. og útvarpsstöðvunum K100 og Retro er Árvakur að stíga mikilvægt skref í þá átt að bæta þjónustuna og treysta undirstöður rekstrarins til framtíðar,“ segir Haraldur Johannessen, framkvæmdastjóri Árvakurs og ritstjóri Morgunblaðsins í viðtali á mbl.is.

„Við teljum mikil tækifæri í því að tengjast þeim góðu vörum og vörumerkjum sem Edda – útgáfa hefur boðið upp á, Andrésblöðunum og öðru af því tagi sem tengist Disney.“

Matarvefur með Tobbu Marinós

Jafnframt hyggst Árvakur hefja útgáfu á nýjum matarvef undir stjórn Tobbu Marinósdóttur en hann kemur til viðbótar við nýjan vef um sjávarútvegsmál sem heitir 200 mílur þar sem Þorvaldur B. Arnarsson sér um frétta- og greinaskrif.

„Þá höf­um við séð á þróun fjölmiðla á liðnum árum, bæði hér heima og erlendis, að útvarp hefur haldið sínu þrátt fyrir hraðar og miklar tæknibreytingar. Þar eru því tvímælalaust tækifæri og alveg sérstaklega fyrir fjölmiðil sem rekur stærstu og öflugustu fréttastofu landsins og getur nú boðið upp á fréttir á öðru formi en áður,“ segir Haraldur.

„Við teljum líka að það séu margvísleg önnur jákvæð samlegðaráhrif á milli miðlanna og munum nýta þau til að ná til enn fleiri notenda og örva vöxt í hverjum miðli fyrir sig og öllum saman.“