DJ Asia-Pacific hlutabréfavísitalan hækkaði um 0,9% í dag eftir talsverða hækkun í Hong Kong og Sjanghæ en nokkra lækkun í Japan. Markaðurinn í Japan lækkaði við fréttir um að fjármálafréttafyrirtækið SFCG hefði óskað eftir greiðslustöðvun. Vonir um að Bandaríkjastjórn mundi tryggja framtíð Citigroup hjálpaði markaðnum hins vegar upp úr upphaflegri lægð í dag, að sögn MarketWatch.

WSJ sagði frá því að Citigroup ætti í viðræðum sem gætu leitt til þess að Bandaríkjastjórn yki hlut sinn í bankanum, jafnvel upp í 40%. Talið er að fréttirnar hafi orðið til þess að margir hafi lokað skortstöðum sínum, sem hefur jákvæð áhrif á hlutabréfaverð.