Metfjöldi kvenna mun taka sæti á Alþingi ef úrslit verða í samræmi við núverandi stöðu þegar rúmlegur þriðjungur atkvæða hafa verið talin, en konur yrðu þá 30 eða 47,6% þingmanna. Staðan getur þó hæglega breyst þegar á líður.

Samkvæmt greiningu RÚV hafa hingað til aldrei verið kosnar fleiri en 27 konur á þing í einum kosningum og yrði því um að ræða sögulegan fjölda kvenna á Alþingi.  Kvenkyns þingmenn voru 28 talsins á síðasta kjörtímabili eftir að Ásta Guðrún Helgadóttir tók sæti við brotthvarf Jóns Þórs Ólafssonar af þingi.

Mikill munur er á kynjasamsetningu eftir kjördæmum en karlar eru 60,7 % þingmanna á landsbyggðinni en 45,7 % á höfuðborgarsvæðinu. Konur eru því 39,3 % þingmanna á landsbyggðinni en 54,3 % á höfuðborgarsvæðinu.