Samkvæmt Sigurði Inga Jóhannessyni, forsætisráðherra, kemur til greina að boðað verði til sumarþings. Þetta kemur fram í viðtali ráðherrans við Morgunblaðið í dag.

Formenn stjórnarandstöðuflokka á Alþingi hafi verið kallaðir til fundar í forsætisráðuneytinu klukkan 13 í dag til að fara yfir þau mál sem brýnt er að ljúka fyrir næstu kosningar. „Við erum annars vegar að fara að ræða forgangsmál ríkisstjórnar, sem við leggjum áherslu á, og hinsvegar mál sem mikilvæg eru til að stjórnarkerfið gangi sinn eðlilega gangs“, sagði Sigurður Ingi og bætti við að einhugur sé um það í ríkistjórninni hvaða mál þurfi að setja í forgang á þessu þingi.

Sigurður Ingi segir aðalatriðið nú að sett verði fram áætlun um hvernig best sé að ljúka þessum málum. „Það er samtal sem við þurfum að eiga við stjórnarandstöðuna.“