Í grófum dráttum snýst tilboð Samtaka atvinnulífsins (SA) um 23,5% launahækkun á næstu þremur árum með breytingu vinnufyrirkomulags. SA leggur sem sagt til að grunnlaun hækki en á móti lækki samningsbundnar álagsgreiðslur eins og yfirvinna og vaktavinna. Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, segir að fundirnir í þessari viku hafi verið mjög gagnlegir og því sé hann bjartsýnni en áður. Næstu dagar muni skera úr um það hvort samningar náist.

„Við erum að ræða saman á grundvelli þessa tilboðs sem við lögðum fram og verið á vinnufundum að fara saman hvað fellst í okkar tilboði," segir hann. „Þetta er stærsta einstaka tilboð sem við höfum nokkurn tímann lagt á borðið og reynir auðvitað mjög á efnahagslegt svigrúm til kjarasamninga án þess að raska stöðugleika. Þetta gengur eins langt og jafnvel lengra en við teljum skynsamlegt að fara."

Spurður hvort þær breytingar sem SA leggi til á vinnumarkaðsmódelinu séu of umfangsmiklar á þessum tímapunkti og hvort það þurfi ekki að kynna þær vel til að skapa einhverja umræðu um þær svarar Þorsteinn: „Við höfum ekki útilokað það í sjálfu sér að ráðist verði í þessar breytingar í áföngum. Þetta upplegg svipar til kennarasamningsins í fyrra. Kennarar sömdu um launabreytingar en því samhliða um umtalsverðar breytingar á vinnufyrirkomulagi. Eftir að málið hafði verið kynnt greiddu kennarar sérstaklega atkvæði um breytingarnar á vinnufyrirkomulaginu. Það er ekkert útilokað að við förum sömu leið því það þarf tíma til að útfæra þetta nákvæmlega og kynna þetta."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .