Þó töluvert hafi þokast í samkomulagsátt, telur Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins enn langt í land í kjaraviðræðum. Tilboð samtakanna um 23,5 prósenta hækkun dagvinnulauna komi sér best fyrir fólk með lægstu launin og jafni kynbundinn launamun. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV .

Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram þá tillögu að dagvinnulaun muni hækka um 23,5% á þremur árum fyrir félagsmenn VR, LÍV, Flóabandalgsins og Starfsgreinasambandsins. Hluti af því felst í því að breyta vinnufyrirkomulagi, meðal annars með lengingu dagvinnutímabilsins. Þorsteinn segir í samtali við RÚV að aðgerð af því tagi sem verið er að leggja til, þ.e.a.s. að hluti af þessari hækkun, eða um 8%, fer þá í að hækka dagvinnulaun sérstaklega, á móti þá lægra yfirvinnuálagi og sveigjanleika í dagvinnutímabilinu, það komi auðvitað þeim hópum best sem enga yfirvinnu vinna í dag. Hann segir að því megi segja að þar af leiðandi hafi þessi aðgerð á sér töluverða áferð láglaunaaðgerðar, þetta komi tekjulægstu hópunum langbest. Þó telur hann aðgerðina ekki draga úr hvata til yfirvinnu.

Hann segir aðgerðina ennfremur hafa jákvæð áhrif á kynbundinn launamun. Hann segir einn af skýriþáttum kyndbundins launamunar vera meiri yfirvinna hjá karlmönnum en konum og að þetta myndi þá draga úr því ójafnvægi sem þar er á milli.

Þorsteinn segir að með þessari tillögun sé gengið eins langt, og jafnvel of langt, en mögulegt sé án þess að ógna efnahagsstöðugleikanum, og jafnvel of langt. Hann segir seðlabankastjóra hafa gagnrýnt tilboð þeirra og sagt að samtökin hafi farið alveg út af brúninni og mögulega út fyrir hana. Hann telur að þetta sé alveg rétt mat hjá seðlabankastjóra, en menn mátu það svo að þetta væri nauðsynleg aðgerð til þess að ná sátt á vinnumarkaði.