Íslendingar geta búist við því að upp úr árinu 2025 verði þrjú olíusvæði norðan Íslands; á Drekasvæðinu, út af Austur-Grænlandi, og við Jan Mayen. Íslensk stjórnvöld stefna að því að byggja upp þjónustu á Norðurlandi við öll olíusvæðin þrjú, og hafa átt viðræður við Grænland og Noreg um íslenskar þjónustumiðstöðvar við olíuvinnsluna.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagðist á fundi Arion banka í morgun um Drekasvæðið og hugsanlega olíuvinnslu Íslendinga, vera bjartsýnn á olíufund á Drekasvæðinu og taldi það geta verið farsælt að stofna sérstakan Auðlindasjóð til að fara með nýtingargjöld sem renna til ríkisins vegna auðlinda í eigu þess. Þá benti hann á nauðsyn þess að tryggja að hugsanlegur afrakstur af olíuvinnslu á næsta áratug leiði ekki til ójafnvægis og ofhitnunar í íslenska hagkerfinu.

Haft er eftir Össuri í tilkynningu um málið frá utanríkisráðuneytinu að hann hafi m.a. lagt mikla áherslu á að farið yrði í olíuvinnslu norðan Íslands af ítrustu varkárni. Olíuvinnslu þar ætti aðeins að leyfa á grundvelli ströngustu umhverfisreglna, og ekki fyrr en nauðsynlegur öryggisbúnaður vegna mengunaróhappa væri kominn upp.