Alþjóðlega lánveitingin til íslenskra stjórnvalda gæti orðið helmingi stærri eða um 10 milljarðar Bandaríkjadala.

Þetta hefur Dow Jones-fréttaveitan eftir háttsettum embættismanni í finnska fjármálaráðuneytinu en hann segir mögulegt að bresk, þýsk og hollensk stjórnvöld láni 5 milljarða dala til viðbótar við þá 5,1 milljarða dala lánafyrirgreiðslu sem íslensk stjórnvöld tryggðu sér í gær.

Dow Jones gat ekki fangið smáatriði varðandi mögulega lánveitingu breskra stjórnvalda til Íslands staðfest. Hinsvegar staðfestir talsmaður hollenska fjármálaráðuneytisins við fréttaveituna að íslenskum stjórnvöldum verði lánað 1,3 milljónir evra svo hægt verði að tryggja eignir hollenskra innistæðueigenda í Icesave-reikningum Landsbankans þar í landi.

Talsmaður þýska fjármálaráðuneytisins sagði við Dow Jones að lagt verði lokahönd á lán til íslenskra stjórnvalda á næstu dögum.

Fram kemur í umfjöllun Dow Jones að búist sé við að 5,1 milljarða dala lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum auk Norðurlandanna, Rússlands og Póllands verði notað til þess að styrkja gjaldeyrisforða landsins þannig að hægt sé að styðja við gengi íslensku krónunnar.

Á sama tíma verða lánin frá Bretlandi, Hollandi og Þýskalandi notuð til þess að borga tryggingar til eigenda innlána í Icesave-reikninga Landsbankans í löndunum þrem.