Lífeyrissjóðurinn Gildi mun skoða að höfða skaðabótamál gegn stjórnendum Glitnis ef ekkert mun fást upp í kröfu hans vegna víkjandi skuldabréfaflokks sem bankinn gaf út í mars 2008. Auk þess er mögulegt að sjóðurinn muni stefna stjórnendum banka eða fyrirtækja vegna margra annarra mála sem valdið hafa honum fjárhagslegu tjóni. Þetta segir Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, í samtali við Viðskiptablaðið.

Á aðalfundi Gildis í gær kom fram að búið sé að afskrifa víkjandi skuldabréf útgefin af Glitni. Virði skuldabréfsins er 3,69 milljarðar króna. Um er að ræða stærstu einstöku varúðarniðurfærslu á kröfu hjá Gildi.

Aðrir lífeyrissjóðir og fjárfestar keyptu líka í útboðinu

Fjölmiðlar hafa í dag greint frá kröfunni líkt og um lán hafi verið að ræða frá Gildi til Glitnis sem hafi tapast.

Árni segir það ekki rétt. „ Þetta er ekki lánveiting til Glitnis heldur skuldabréfaflokkur sem var gefinn út í mars 2008. Víkjandi skuldabréf sem voru gefin út í 15 milljarða útboði. Gildi tók ákvörðun um að kaupa fyrir þrjá milljarða króna. Sú krafa hefur síðan hækkað. Þetta var gert í mars 2008 og af þessu stóðu stjórn sjóðsins og framkvæmdastjóri og forstöðumaður eignarstýringar. Þeir tóku þessa ákvörðun sameiginlega á grunni þess að þetta væri kostur sem væri áhugaverður.En að tala um að þessi krafa sé hærri en heildariðgjöld til sjóðsins líkt og hefur verið gert í fjölmiðlum er af og frá. Iðgjöldin eru á bilinu tíu til ellefu milljarðar króna. Þetta er bréf upp á þrjá milljarða þegar það var keypt, en hefur að vísu hækkað síðan. “

Glitnir gaf villandi og rangar upplýsingar

Eftir að Glitnir féll urðu víkjandi kröfur hins vegar að öllum líkindum verðlausar, enda lenda þær aftar í kröfuhafaröð en almennar kröfur. Árni segir að Gildi hafi lýst kröfunni í búið sem almennri á grundvelli þess að sjóðurinn telji að Glitnir hafi gefið bæði villandi og rangar upplýsinga um stöðu bankans í tengslum við útboðið á skuldabréfunum. Slitastjórn Glitnis hafnaði þeirri kröfulýsingu.

Árni segir að fleiri séu í sömu stöðu og Gildi í þessu máli, enda hafi fleiri lífeyrissjóðir og almennir fjárfestar keypt bréf í útboðinu. Tvö þessara mála hafa verið tekin út sem prófmál og verða rekin fyrir dómstólum. Því sé ekki útilokað að eitthvað fáist upp í kröfuna. „Þar mun reyna á þessi mótmæli okkar og hvort að tekið verði til greina að bankinn hafi ranglega upplýst um stöðu bankans á þeim tíma. Við færum þetta alveg niður í reikningunum vegna þess að við teljum okkur skylt að gera það. Það er þó ekkert útilokað að við fáum eitthvað upp í þessa kröfu.“

Munu mögulega stefna stjórnendum bankans

Að sögn Árna mun Gildi síðan skoða hvernig málið stendur þegar niðurstaða dómstóla liggur fyrir. „Þegar sú ákvörðun liggur fyrir getur vel verið að það verði tekin ákvörðun um að fara í frekari skaðabótamál gegn stjórnendum bankans. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða. Það er búið að liggja fyrir að okkar hálfu að við munum fylgja þessum málum eftir. Það er allt opið hjá okkur varðandi framhaldið í þessu. Ekki bara í þessu einstaka máli heldur mörgum öðrum. Skýrsla rannsóknarnefndar hjálpar okkur líka að finna okkur betri aðstæður á bakvið mörg málin. Sérstaklega þessi gjaldeyrissamningamál sem við erum alltaf að glíma við. Engin þeirra eru komin fyrir dómstóla sem snúa að lífeyrissjóðunum enn sem komið er og það er enn ekki búið að slíta formlega viðræðum lífeyrissjóðanna og bankanna um uppgjör á þeim. En eftir að skýrslan kom út þá teljum við ástæðu fyrir sjóðina að fara gaumgæfilega yfir það hvort að tilefni sé til þess að semja.“