Davíð Oddsson seðlabankastjóri sagði á fundi í bankanum í dag að útlit sé fyrir að mögulegt verði að lækka stýrivexti á fjórða ársfjórðungi, en bankinn ákvað í dag að halda vöxtunum óbreyttum í 14,25%.

"Samkvæmt verðbólguspá bankans verður hægt að lækka stýrirvexti á fjórða ársfjórðungi á þessu ári," sagði Davíð.

Aðspurður hvort að mögulegt sé að lækka vexti fyrr, sagði Davíð það vera ólíklegt. "Hins vegar gæti lækkun krónunnar eða tilkynningar um stóriðjuframkvæmdir seinkað lækkun (vaxtanna) og jafnvel stuðlað að hækkun," sagði seðlabankastjóri.

Ákvörðun Seðlabankans um að halda vöxtunum óbreyttum er í takt við væntingar greiningaraðila og markaðsaðila, sem höfðu gera ráð fyrir óbreyttum stýrivöxtum fram á sumar en þá er búist við að nægilegt svigrúm hafi myndast í hagkerfinu til þess að Seðlabankinn geti byrja að lækka stýrivexti.