Pólska símafyrirtækið Netia er talið líklegt til þess að leita eftir nýjum kjölfestufjárfesti, en Novator á um 30% hlut í félaginu. Heimildarmenn Viðskiptablaðsins útiloka ekki að Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors, hafi áhuga á að selja hlut sinn.

Sérfræðingar á pólskum fjármálamarkaði hafa einnig velt því fyrir sér hvort að Novator hafi áhuga að að minnka stöðu sína í félaginu í kjölfar sölu á hlut sínum í tékkneska fjarskiptafyrirtækinu CRa og hugsanlega sölu á 65% hlut í búlgarska símafyrirtækinu BTC.

Búist er við að stjórnendur Netia greini nánar frá framtíðaráætlunum sínum á öðrum ársfjórðungi og benda sérfræðingar Global Daily Insight á að möguleiki sé fyrir símafyrirtæki með áhuga á póskum símamarkaði til að fjárfesta í Netia.

Farsímaarmur Netia, sem nú kallast Play, tók nýlega inn nýjan fjárfesti við yfirtöku á gríska fyrirtækinu Germanos þar sem greitt var fyrir félagið með hlutafé í Play. Eftir viðskiptin er hlutur Novators í félaginu 54,6% í stað 70% og hlutur Netia minnkar í 23,4%. Fjárfestingafélagið Tollerton, sem skráð er á Kýpur, eignaðist 22% í Play við það að leggja Germanos inn í félagið.

Eigendur P4 hafa samþykkt að fjárfesta 300 milljónir evra, sem samsvarar tæplega 27 milljörðum króna, í félaginu og mun Tollerton-sjóðurinn leggja til 35 milljónir evra af þeirri upphæð. Novator, sem er stærsti hluthafinn, mun því borga stærsta hluta fjárhæðarinnar.