Mögulegt er að tvöfalda fjölda þeirra ferðamanna sem koma til Íslands, þannig að þeir fari úr 700 þúsund í 1,5 milljónir árið 2023. Þetta er mat ráðgjafafyrirtækisins Boston Consulting Group sem kynnir niðurstöður sínar á ráðstefnu Icelandair í Hörpu í dag.

Í skýrslunni kemur fram að á síðasta ári greiddu erlendir ferðamenn um 15 milljarða króna í beina skatta, eða sem svarar til um 120 þúsund krónu framlags til hvers heimilis á Íslandi. Með óbeinum sköttum nam fjárhæðin um 27 milljörðum króna á síðasta ári.  Vöxturinn í útflutningstekjum af ferðaþjónustu á fyrsta áratug þessarar aldar nam 136%.

Boston Consulting Group segir aftur á móti að til að ná árangri um fölgun ferðamanna þurfi að tryggja náttúruvernd, fá ferðamenn til að eyða meiru hér, draga úr árstíðasveiflu og dreifa ferðaþjónustu um landið allt. Framtíðarsýn ferðaþjónustunnar eigi að byggja á því að „hámarka framlag ferðaþjónustunnar til þjóðarbúsins með skynsamlegri og arðbærri fjölgun ferðamanna sem er innblásin af sérstæðri náttúru, einstæðri menningu og gestrisni.”