Borgun hefur enn ekki borist tilkynning frá Fjármálaeftirlitinu um að máli tengdu fyrirtækinu hafi verið vísað til héraðssaksóknara að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Þrátt fyrir það voru fluttar fréttir af málinu í RÚV síðasta þriðjudag, en málið tengist athugun og síðar athugasemdum við verklag og eftirlit vegna áreiðanleikakannana á erlendum viðskiptavinum.

Tilkynning ekki borist enn

„Það hefur ekkert ennþá varðandi þessa framvísun borist okkur," segir Erlendur Magnússon, stjórnarformaður Borgunar í blaðinu.

„Við vitum ekkert meira um þennan þátt málsins en það sem við höfum heyrt í fréttum. Okkur hefur ekki verið tilkynnt um þessa framvísun FME.“

Engin ákvörðun hefur verið tekin um að kanna hvernig fregnir af framvísun málsins komust í fjölmiðla.

„Við þurfum að meta það í framhaldinu, en þetta er afskaplega undarleg stjórnsýsla. Það er ekkert annað hægt að segja um það," segir Erlendur en málið reis í framhaldi að skýrslu FME um starfsemi Borgunar.

Athugasemdir vegna laga um peningaþætti og fjármögnun hryðjuverka

Í skýrslunni voru gerðar alvarlegar athugasemdir við það hvernig Borgun framfylgir lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem snúa að því að fyrirtækið kanni ekki nógu vel hvort upplýsingar um erlenda viðskiptamenn fyrirtækisins væru áreiðanlegar.

Borgun telur sig hins vegar hafa framkvæmt áreiðanleikakannanir á viðskiptavinum samkvæmt verklagshefð EES svæðisins að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu í síðustu viku.

Áður krafist rannsóknar á leka

Borgun hefur áður íhugað að krefjast rannsóknar á því hvort reglur um bankaleynd hefðu verið brotnar þegar upplýsingar um fyrirtækið láku í fjölmiðla.

Snerist málið sem kom upp í apríl 2015 þá um úttekt félagsins af rekiningi Sparisjóðs Vestmannaeyja.