Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti í morgun, mánudaginn 22. janúar, ræðu á alþjóðlegri ráðstefnu um sjálfbæra þróun sem haldin er í Delhi á Indlandi dagana 22.-24. janúar (Delhi Sustainable Development Summit), segir í fréttatilkynningu.

Í ræðu sinni við setningarathöfn ráðstefnunnar í morgun fjallaði forseti Íslands um möguleika á samstarfi Indverja og Íslendinga um nýtingu hreinna orkulinda svo sem jarðhita. Hann nefnir þann árangur sem orðið hefði í samstarfi þjóðanna eftir opinbera heimsókn forseta Indlands til Íslands árið 2005. Þá rakti forseti Íslands hvernig Ísland gæti orðið miðstöð fyrir samræður, rannsóknir og ákvarðanir á sviði hreinnar orku og stuðlað þannig að breyttri orkunýtingu á heimsvísu um leið og hamlað yrði gegn hættum vegna loftslagsbreytinga.

Í ræðu sinni ítrekaði forsetinn þær áherslur sem fram komu í nýársávarpi hans hinn 1. janúar síðastliðinn og óskaði eftir samvinnu við rannsóknarstofnanir, fyrirtæki, samtök og sérfræðinga á Indlandi.

Í fyrirsvari fyrir ráðstefnunni er Dr. R. K. Pachauri, aðalframkvæmdastjóri tækni- og vísindastofnunarinnar TERI á Indlandi. Dr. Pachauri stýrir jafnframt vinnu IPCC (Intergovernmental Panel on Climate Change) en það er samstarf um 3000 vísindamanna um mat á hættum vegna loftslagsbreytinga. Niðurstöður af starfi IPCC eru væntanlegar á næstunni.

Þá voru forseti Íslands og forseti Finnlands Tarja Halonen heiðursgestir á fundi indverskra fyrirtækja sem haldin var í gær, sunnudaginn 21. janúar. Á fundinum var einkum rætt um samspil orkubúskapar, loftslagsbreytinga og efnahagslegrar þróunar. Þátttakendur voru forystumenn á fjölmörgum sviðum indversks efnahagslífs og fluttu báðir forsetarnir ræður á fundinum.

Á ráðstefnunni verður meðal annars fjallað um hættuna á varanlegum loftslagsbreytingum og áhrif þeirra á lífshætti og lífsskilyrði í heiminum, þróun orkumála í veröldinni og hlutverk endurnýjanlega orkugjafa, ekki síst með tilliti til Indlands og Kína, vatnsbúskap í Asíu og Afríku, tækninýjungar og baráttuna gegn fátækt.

Ráðstefnuna sækja, auk fjölmargra indverskra forystumanna, heimsþekktir vísindamenn og fræðimenn, forstjórar alþjóðlegra stórfyrirtækja og stjórnmálamenn, leiðtogar á vettvangi umhverfismála og forystumenn stofnana og samtaka. Meðal þátttakenda eru m.a. Tarja Halonen forseti Finnlands, Kjell Magne Bondevik fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, hagfræðingurinn Jeffrey Sachs, Ruud F. M. Lubbers fyrrverandi forsætisráðherra Hollands og Nicholas Stern, höfundur svokallaðrar Stern-skýrslu um loftslagsmál.