„Meirihlutinn var í þeim hóp sem telur að það sé hægt að flytja framleiðslu á hönnun heim og skapa störf og gjaldeyristekjur. Ég er í þeim hóp, og tel að þetta sé möguleiki. Þess vegna fannst mér mikilvægt að koma þessum umræðum af stað. Hvort það verða svo komnar tvær verksmiðjur á Íslandi að framleiða í vor veit ég ekki,“ segir Kristín Vala Ragnarsdóttir, nýr forseti Verkfræði og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands í samtali við Viðskiptablaðið.

Kristín Vala stóð fyrir málstofu í Háskóla Íslands með yfirskriftinni: „Getum við flutt framleiðslu á íslenskri hönnun hingað heim og skapað þannig störf og aukið gjaldeyristekjur.“

Hugmyndin að málstofunni kviknaði þegar Kristín Vala las viðtal við Steinunni Sigurðardóttur hönnuð þar sem fram kom að íslensk hönnun er að mestu leyti framleidd erlendis. Tilgangur málstofunnar var þannig að þróa hugmyndir um hvernig því megi breyta og skapa þar með ný atvinnutækifæri.

„Þarna komu saman um 60 manns alls staðar af landinu og þetta var fólk með alls konar bakgrunn: Verksmiðjueigendur, iðnaðarmenn, fólk úr Listaháskólanum, Iðnskólanum og Háskóla Íslands, hönnuðir, listamenn og verkfræðingar. Þannig að alls konar þekking kom þarna saman og við sátum í kringum lítil borð og ræddum ákveðnar spurningar sem við Steinunn höfðum ákveðið fyrirfram. Spurningarnar voru: Hvað vantar í hönnunarflóruna á Íslandi? Hvaða vélar og verkstæði eru til? Hvernig má bæta samband hönnuða og framleiðenda?  Þetta var mjög skapandi umhverfi og þarna hittist fullt af fólki sem hafði aldrei talað saman áður. Þannig að nú ætlar Steinunn með fjórum öðrum konum að taka niðurstöðurnar saman í Hönnunarmiðstöðinni,“ segir Kristín Vala.

Kristín Vala telur sjálf mun meiri líkur á að hægt sé að flytja framleiðslu á íslenskri hönnun hingað til lands nú en áður.