Leiðandi hagvísir Analytica (e. Composite Leading Indicator), sem gefur vísbendingu um framleiðslu að hálfu áru liðnu, hækkaði á ný í desember. Um er að ræða hækkun annan mánuðinn í röð auk þess sem októbertölur voru endurskoðaðar til hækkunar.

Að sögn Yngva Harðarsonar hjá Analytia er þó enn of snemmt að túlka með afgerandi hætti hver þróunin verði en teiknin eru að hans mati jákvæð. Miðað við að hagvísirinn hafi forspárgildi um vendipunkta um sex til níu mánuði virðist nú möguleiki á viðsnúningi í átt að efnahagsbata á öðrum eða þriðja ársfjórðungi 2021.

Þrír af sex undirliðum hækka frá í desember en stærsta framlag til hækkunar er vegna hækkunar væntingavísitölu Gallup og vísitölu aflamagns. Langtímauppleitni mikilvægra undirþátta hefur verið sterk en í bráð hefur langtímaleitnin minna að segja. Ennþá er sérstök óvissa tengd ferðaþjónustu og mögulegum tímasetningum bólusetninga vegna COVID-19 farsóttarinnar.

Skoðar upphaf framleiðsluferlis að fyrirmynd frá OECD

Leiðandi hagvísir Analytica er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum og hefur vísitalan verið birt mánaðarlega síðan vorið 2013. Vísitölur leiðandi hagvísa hafa verið reiknaðar fyrir flest helstu iðnríki um áratugaskeið í þeim tilgangi að veita tímanlega vísbendingu um framleiðsluþróun.

Hugmyndin að baki vísitölunni er sú að framleiðsla hefur aðdraganda. Vísitalan er reiknuð á grundvelli þátta sem mælast í upphafi framleiðsluferilsins og/eða veita vísbendingar um eftirspurn eftir vörum og þjónustu. Til að unnt sé að auka framleiðslu þarf t.d. að afla aðfanga og stofna til fjárfestinga.

Leiðandi hagvísir Analytica er samansettur úr sex undirþáttum af mismunandi toga. Um er að ræða aflamagn, debetkortaveltu, ferðamannafjölda, heimsvísitölu hlutabréfa, innflutning og væntingavísitölu Gallup. Í desember hækka þrír af sex undirþáttum frá fyrra ári. Frá í nóvember hækka einnig þrír af sex undirþáttum. Tölur sem liggja til grundvallar hagvísinum ná fram í desember.