Skilyrði gætu verið að skapast fyrir töluverðri bólumyndun á eignamarkaði og slík bólumyndun gæti smitast út á íbúðamarkað verði fjármagnshöftin ekki afnumin. Þetta segir Marínó Melsteð, fagstjóri rannsókna og spáa hjá Hagstofu Íslands, í samtali við Morgunblaðið. Ný þjóðhagsspá Hagstofunnar kom út í gær en í henni er m.a spáð að landsframleiðsla aukist um 3,1% á þessu ári og 3,4% á því næsta.

Í spá Hagstofunnar segir að markaðsvirði hlutabréfa á aðallista Kauphallar Íslands hafi hæst farið í ríflega 3.600 milljarða í júlí 2007 en var lægst um 157 milljarðar í mars 2009. „Frá þeim tíma hefur hlutabréfamarkaður sótt í sig veðrið og var markaðsvirði félaga á aðallistan- um um 580 milljarðar króna í maí 2014,“ segir í spánni.

Skilvirkni eykst með fleiri félögum og fjárfestum

Þar segir ennfremur. „Mikil hækkun hlutabréfa skráðra félaga og umframeftirspurn í hlutafjárútboðum að undanförnu hefur leitt til vangaveltna um hvort bólumyndun, þ.e.a.s. hækkun um- fram undirliggjandi verðmæti, sé að eiga sér stað á hlutabréfamarkaði. Gjaldeyris- höftin og mikið magn peninga í hagkerfinu skapa ákveðna samkeppni um þá fáu fjárfestingarkosti sem í boði eru á markaði sem kemur að öllum líkindum fram í hærra verði þeirra eigna sem bjóðast. Félög á aðallista Kauphallar eru enn fá og langstærstur hluti þeirra er í eigu fárra stórra fjárfesta, en ætla má að skilvirkni markaðarins aukist eftir því sem félögum og fjárfestum á hlutabréfamarkaði fjölgar.“

Bólumyndun innan hafta er talin meðal helstu óvissuþátta sem teknir eru fyrir í spá Hagstofunnar en auk þeirra er tekin fram óvissa um að stóriðjuframkvæmdir verði minni á spátímanum en gert var ráð fyrir, óvissa um launa- og gengisþróun auk óvissu um afnám hafta og afleiðingar þess fyrir efnahagslegan stöðugleika.