Endurskoðuð greining á fjölmörgum sýnum sem aflað var með borunum í Þormóðsdal í Mosfellsbæ fyrir um áratug bendir til þess að vænlegt sé að undirbúa gullvinnslu á svæðinu. Þéttleiki gullsins í allra bestu sýnunum reyndist vera allt að 400 grömm í hverju tonni af bergi, að því er segir í Morgunblaðinu .

Dr. Þorsteinn Ingi Sigfússon, prófessor og forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, mun fjalla um gull í íslensku jarðhitabergi á ársfundi stofnunarinnar sem haldinn er í dag. Hann mun m.a. greina frá niðurstöðum varðandi Þormóðsdal.

Gull á Íslandi er upprunnið í jarðhitasvæðum sem tengjast gömlum megineldstöðvum. Íslenska gullið er laust við erfiða þungmálma og aðskotamálma eins og kvikasilfur, gagnstætt því sem oft gerist í gullæðum annars staðar í heiminum. Þess vegna má reikna með því að gullvinnsla hér geti orðið eitthvað umhverfisvænni en víða annars staðar. Þorsteinn telur hreinleika íslenska gullsins meðal ástæðna til að skoða vinnslu þess betur.