Tilkynningar til markaðarins, byggðar á innherjaupplýsingum úr uppgjörsdrögum skráðra félaga, geta í einhverjum tilfellum leitt til þess að misvísandi skilaboð séu send fjárfestum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein eftir dr. Andra Fannar Bergþórsson, lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, í nýbirtri grein í Úlfljóti, tímariti laganema við Háskóla Íslands.

Í eldri grein sama höfundar um efnið, sem birtist í Tímariti lögfræðinga árið 2014, var því haldið fram að skyldan til að birta innherjaupplýsingar virkjaðist þegar þær væru endanlegar. FME hefði hins vegar túlkað laga- og reglugerðarákvæði á þá leið að skyldan til birtingar virkjaðist um leið og upplýsingar mynduðust.

Greinin ber titilinn „Tímamark upplýsingaskyldu þegar innherjaupplýsingar myndast í uppgjörsvinnu“ en meginþungi hennar fer í umfjöllun um dóm Hæstaréttar, frá 16. desember í fyrra, í máli Eimskipafélags Íslands gegn Fjármálaeftirlitinu (FME) og íslenska ríkinu.

Í málinu krafðist Eimskip þess að 50 milljóna króna stjórnvaldssekt FME, frá í mars 2017, yrði felld úr gildi. Sektin hafði verið lögð á þar sem FME taldi að Eimskip hefði ekki birt innherjaupplýsingar sem urðu til við uppgjörsvinnu félagsins. Í febrúar 2016 hafði félagið birt afkomutilkynningu þar sem fram kom að áætluð EBITDA ársins 2016 væri á bilinu 46-50 milljónir evra. Uppgjör fyrsta ársfjórðungs þess árs var síðan birt 26. maí það ár og afkomuspá hækkuð í 49-53 milljónir evra þar sem EBITDA félagsins hefði aukist um tvo þriðju á fjórðungnum miðað við sama tímabil árið á undan.

Fyrstu drög téðs ársfjórðungsuppgjörs höfðu legið fyrir um hádegi sex dögum áður en uppgjörið var birt en endanleg útgáfa, sem samþykkt var af stjórn og tilkynnt markaðnum, var sjötta útgáfa uppgjörsins. FME taldi að fyrstu drög uppgjörsins hefðu sýnt mikið bætta afkomu og að innherjaupplýsingar hefðu verið til staðar innanhúss frá því að þau lágu fyrir. Félaginu hefði því verið skylt að tilkynna markaðnum um þær eins fljótt og auðið er.

Fyrir dómi byggði Eimskip meðal annars á því að upplýsingarnar hefðu ekki verið nægilega tilgreindar þann 20. maí og því hefði skylda til birtingar ekki myndast. Öll dómstig höfnuðu þeim röksemdum, héraðsdómur benti á að „óverulegar breytingar“ hefðu orðið á uppgjörinu á tímabilinu og í Hæstarétti sagði að Eimskip hefði ekki „fært fram viðhlítandi rök fyrir því að viðbúið hafi verið að verulegar breytingar kynnu að verða á árshlutareikningnum frá því fyrstu drög hans lágu fyrir“. Upplýsingarnar hafi verið nægilega tilgreindar og líklegar til að hafa „marktæk áhrif á markaðsverð“ bréfa í félaginu.

Skyldan verður virk um leið

„Spurningin sem vaknar í þessu sambandi er: hvar liggja mörkin á milli fjárhagsupplýsinga sem skynsamur fjárfestir myndi taka tillit til og þeirra sem hann myndi ekki horfa til? Erfitt er að gefa eitt svar við því sem myndi taka tillit til allra tilvika,“ ritar Andri Fannar.

„Staða útgefenda í dag er því sú að upplýsingaskyldan verður virk um leið og innherjaupplýsingar myndast í uppgjörsvinnu jafnvel þótt um sé að ræða fyrstu drög að uppgjörinu,“ segir í greininni. Þó þurfi annars vegar að gera greinarmun á innherjaupplýsingum sem fela í sér breytingar frá áður opinberum upplýsingum og hins vegar upplýsingum sem fela í sér litlar breytingar. Þær fyrrnefndu beri að birta eins fljótt og auðið er en í síðarnefnda tilfellinu sé svigrúm til frestunar á birtingu talsvert meira.

„Upplýsingaskyldunni er vissulega ætlað að tryggja að ávallt liggi fyrir allar þær upplýsingar sem skipta fjárfesta máli og stuðli þannig að því að fjárfestar geti tekið upplýsta fjárfestingaákvörðun. En upplýsingarnar þurfa að vera nákvæmar og réttar til að hægt sé að byggja á þeim í fjárfestingum,“ segir Andri Fannar. Hætta geti því verið á að drögin taki breytingum og möguleiki á að misvísandi skilaboð séu send markaðnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .