Borðspilið Bezzerwizzer hefur fært höfundi sínum, Dananum Jesper Bülow, góða búbót en aðeins á liðnu ári hagnaðist fyrirtæki hans um einar sextíu milljónir íslenskra króna vegna sölu spilsins í Danmörku og Þýskalandi á liðnu ári.

Frá því að spilið var sett á markaðinn í nóvember 2006 hafa eitt hundrað þúsund eintök selst af spilinu.

Bezzerwizzer er eins og nafnið ber með sér spurningarspil sem reynir á þekkingu leikmanna og er sprottið af áhuga Bülows á spilum af svipuðum toga, þar á meðal hinu gamalreynda Trivial Pursuit.

Bülow þótti það spil hins vegar heldur hæggengt fyrir sinn smekk og þróaði því eigið spil sem hann taldi sníða af þá hnökra sem eru á fyrirmyndinni.

Mettel aðstoðar við markaðssetningu

„Velgengni spilsins hefur farið langt umfram trylltustu væntingar mínar og ég er viss um að það hafi alla möguleika á að sigra heiminn,” hefur fréttavefurinn business.dk eftir honum.

Leikfangarisinn Mattel og Bülow hófu samningaviðræður í desember síðast liðnum og hyggjast erindrekar Mattel aðstoða Danina við að selja og markaðssetja spilið fyrir utan dönsku landamæranna. Nú þegar er hægt að kaupa spilið í níu löndum Evrópu.