Alls voru um 2.400 laus störf í ferðaþjónustu hér á landi á öðrum ársfjórðungi samkvæmt mati Hagstofunnar sem hóf að birta þetta mat á fyrsta fjórðungi 2019. Á þeim tíma hafa aldrei verið jafn mörg laus störf í greininni en fyrra met var í kringum þúsund störf á fyrsta fjórðungi 2020. Þetta kemur fram í hagsjá Landsbankans.

Fjöldi lausra starfa áttfaldaðist á milli fyrsta og annars fjórðungs í ár en laus störf voru 300 í greininni á fyrstu þremur mánuðum ársins. Frá því að Covid faraldurinn hófst hefur fjöldi lausra starfa legið á bilinu 0-300. Hagfræðideild Landsbankans lítur á aukninguna núna á lausum störfum sem skýra vísbendingu um að ferðaþjónustan sé aftur að hefja sig til flugs.

Hlutfall lausra starfa á móti fjölda starfandi nam 13% á öðrum ársfjórðungi en fyrra met var á fyrsta fjórðungi í fyrra þegar hlutfallið var 5%.

„Víða er farið að bera á skorti á starfsfólki í ferðaþjónustu og hafa forsvarsmenn félags hótela og gistiheimila, sem hafa verið að sækjast eftir starfsfólki, sagt að illa gangi að manna stöður. Mönnun starfa verður líklega sá þáttur sem helst mun hægja á uppganginum í ferðaþjónustu. Mikið af fjármagnsstofninum í greininni s.s. flugvélar og gististaðir er tilbúnir að taka aftur við miklum fjölda en mönnum starfa kann að leiða til hnökra þegar fjöldi ferðamanna eykst á ný,“ segir í hagsjánni.

Sjá einnig: „Galið“ hve illa gengur að ráða í störf

Frá fyrsta fjórðungi á síðasta ári til fyrsta fjórðungs í ár fækkaði störfum í einkennandi greinum ferðaþjónustu um 45%. Á sama tíma fækkaði alls störfum um 7% í hagkerfinu en fækkun starfa utan einkennandi greina ferðaþjónustu nam einungis 1,5% á milli þessara tímabila.

Hagfræðideildin telur að miðað við spár um fjölda ferðamanna á næstu árum verði fjöldi starfandi í ferðaþjónustunni kominn í 31 þúsund manns en til samanburðar voru 17.900 starfandi í greininni á öðrum ársfjórðungi.