Í kjölfar kaupa KB banka á danska bankanum FIH hefur matsfyrirtækið Moody's nú til athugunar hækkun á lánshæfismati KB banka. Það kom fram í máli þeirra beggja, Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra KB banka og Sigurðar Einarssonar, stjórnarformanns KB banka, að þeir eru bjartsýnir á að endurskoðunin leiði til hækkunar á lánshæfismatinu sem myndi færa bankanum betri viðskiptakjör. Í dag er mat Moody's A2/P1/C+ en forráðamenn KB banka sögðu á fundi með fjárfestum síðastliðin miðvikudag að þeir væntu þess að matið færi upp í A1 einsog kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Moodys tilkynnti strax 14. júní sl., í kjölfar þess að greint var frá kaupum á FIH, að lánshæfismatið yrði endurskoðað í ljósi aukins fjárhagslegs styrks bankans. Var að heyra á forráðamönnum KB banka að niðurstaða þess lægi fyrir innan skamms.