Von er á frekari afskriftum evrópskra banka á flóknum skuldabréfavafningum með veð í bandarískum undirmálslánum og öðrum ótryggum skuldum á öðrum ársfjórðungi, samkvæmt alþjóðlega matsfyrirtækinu Moody´s. Þetta gæti leitt til verulegs taps í sumum tilfellum.

Það eru einkum tveir þættir sem ráða mestu um spá Moody´s, að því er Financial Times greinir frá: Annars vegar hærra áhættuálag á bandaríska skuldabréfavafninga með tengsl við undirmálslán á öðrum fjórðungi og hins vegar sú rýrnun sem hefur orðið á markaðsverðmæti skuldatryggingafélaga (e. monolines), en þau hafa gengist í háar ábyrgðir á flóknum skuldabréfavafningum fjármálafyrirtækja.

Moody´s segist reikna með að þessi þróun, ásamt verðlækkunum á fasteignamarkaði og versnandi efnahagshorfum í Bandaríkjunum, muni líklega hafa neikvæð áhrif á verðmæti eignatryggðra skuldabréfavafninga.

Moody´s greindi jafnframt frá því í gær að hagnaður félagsins á öðrum ársfjórðungi hefði dregist saman um 48% á milli ára, sem var engu að síður yfir væntingum greinenda. Samtals nam hagnaður Moody´s 135,2 milljónum dala á fjórðungnum, borið saman við tæplega 262 milljónir dala á sama tíma fyrir ári. Tekjur lækkuðu um 25% og námu 487,6 milljónum dala.

Alþjóðleg matsfyrirtæki – meðal annarra Moody's – hafa legið undir ámæli fyrir að hafa veitt flóknum skuldabréfavafningum of háar lánshæfiseinkunnir, á sama tíma og vísbendingar voru uppi um slæma viðskiptahætti í útlánaveitingum hjá fasteignalánafyrirtækjum og lækkandi húsnæðisverð.