Matsfyrirtækið Moody´s lækkaði í gær lánshæfiseinkunn ríkissjóðs Íslands um eitt þrep, eins og greint hefur verið frá .

Í Morgunkorni Glitnis er sagt frá því að í rökstuðningi Moody´s fyrir breytingunni komi fram að þrátt fyrir að fjárhagsleg staða ríkissjóðs sé sterk séu ýmsar áðstæður í hagkerfinu sem falli ekki að Aaa einkunn, en það er einkunn í hæsta gæðaflokki.

Að mati Moody´s er afdráttarlaus aðgangur að fjármagni forsenda þess að vera meðlimur í hópi Aaa ríkja. Greiningardeild Glitnis segir lækkunina nú endurspegla það augljósa, að gjaldeyrisforðinn er of lítill og dugar ekki til að tryggja þann afdráttarlausa aðgang sem Aaa einkunn krefst.

Moody´s segir þó að ekki mega gera lítið úr því að Aa1 einkunn endurspegli sterka stöðu ríkissjóðs. Það að einkunnir hans skuli nú vera stöðugar hjá Moody´s undirstrikar þetta mat enn frekar.

Lánshæfismat ríkissjóðs er nú á neikvæðum horfum hjá Standard & Poor´s og Fitch Ratings en á stöðugum horfum hjá Moody´s.