Í júní 2004 hóf Moody's að gefa út lánshæfismat ÍLS. Á þeim tíma gaf fyrirtækið sjóðnum lánshæfismatið Aaa með tilvísun í ríkisábyrgð sem ÍLS hefur, ásamt því lykilhlutverki sem sjóðurinn gegnir í stefnu stjórnvalda í fasteignamálum. Í dag tilkynnti Moody's að fyrirtækið hefði staðfest Aaa mat sitt frá því í júní. Moody's segir að þrátt fyrir að ekki fari að reyna á ríkisábyrgðina fyrr en gengið hefur verið á ÍLS fyrir dómstólum telji þeir líklegt að ríkið muni styrkja sjóðinn áður en til þess kæmi segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Rök þeirra fyrir því eru að ríkið ákveður bæði vexti og lánsupphæðir sjóðsins auk þess sem sjóðurinn sé mjög stór á íslenskum fasteigna- og skuldabréfamarkaði.

Moody's benda á að þrátt fyrir að uppgreiðslur hafi numið 16,8% í árslok 2004 geti sjóðurinn enn dregið út 115 milljarða á móti uppgreiðslum en hafi einnig fjárfest í bréfum sem hann gæti lent í skuldaráhættu með í framtíðinni. Einnig áætla þeir að sjóðurinn muni hafa 50% markaðshlutdeild í nýjum lánum en samkeppnin geti valdið því að ÍLS verði meira í félagslegum lánum í framtíðinni. Þrátt fyrir að eigið fé sjóðsins sé einungis 2,5% af eignum og CAD hlutfallið sé 5,6% telur Moodys það nægjanlegt vegna fyrrnefnds stuðnings ríkisins og góðra gæða lánasafnsins sem í fyrra var einungis með 0,3% vanskil og 0,02% afskriftir. Þeir benda þó á að ef komi til veikingar á fasteignamarkaði muni vanskil líklegast aukast en telja litlar líkur á því að það gerist vegna lágs vaxtastigs og lítils atvinnuleysis.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.