Matsfyrirtækið Moody's hefur birt nýja skýrslu um lánshæfismat Íslandsbanka. Í skýrslunni kemur fram að lánshæfiseinkunnin B- fyrir fjárhagslegan styrkleika bankans hafi nú verið tekin til endurskoðunar og þá til hugsanlegrar lækkunar. Moody's staðfestir á sama tíma lánshæfiseinkunnirnar A1 sem bankinn hefur til langs tíma og P-1 til skamms tíma. Moody's greinir frá því í skýrslunni að fyrirhuguð kaup Íslandsbanka á norska bankanum BNbank hafi m.a. leitt til þess að lánhæfiseinkunn á fjárhagslegum styrkleika bankans hafi nú verið tekin til endurskoðunar.

Í umfjöllun Moody's kemur fram að við endurskoðun á lánshæfismati Íslandsbanka verði einkum horft til vaxtar á tekjum bankans vegna yfirtöku á BNbank, breytingar á fjármögnun samstæðunnar og áhættu bankans vegna kaupanna.

Eins og fram kemur í tilkynningu sem Íslandsbanki sendi frá sér rétt eftir lokun Kauphallarinnar í dag er lánshæfiseinkunnin B- sem bankinn hefur fyrir fjárhagslegan styrkleika hærri en annarra íslenskra banka. Til samanburðar hefur Landsbankinn lánshæfiseinkunnina C fyrir fjárhagslegan styrkleika og er sambærileg lánshæfiseinkunn KB banka C+.