*

miðvikudagur, 13. nóvember 2019
Innlent 4. ágúst 2017 10:48

Moody´s endurskoðar lánshæfi Refresco

Drykkjarvöruframleiðandinn Refresco, að hluta í eigu Stoða, eykur skuldir sínar með kaupum á bandarísku fyrirtæki.

Ritstjórn
Jón Sigurðsson er stjórnarmaður í Refresco

Matsfyrirtækið Moody´s er talið líklegt til að lækka lánshæfiseinkunn drykkjarvöruframleiðandans Refresco Group, en Eignarhaldsfélagið Stoðir, áður FL Group, á 8,87% í félaginu.

Hefur matsfyrirtækið ákveðið að endurskoða einkunnina í kjölfar þess að félagið tilkynnti um kaup á ameríska drykkjarvöruframleiðandanum Cott Corporation á 1,25 milljarða Bandaríkjadali. Það jafngildir um 128 milljörðum króna, og verður það fjármagnað með lánsfé að því er Fréttablaðið greinir frá.

Matsfyrirtækið segir í sinni tilkynningu að kaupin muni auka skuldir Refresco til meðallangs tíma, þó líkur séu á að skuldirnar muni lækka ef að fyrirhuguðu 200 milljóna evra hlutafjárútboði félagsins verði. Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri FL Group, hefur setið í stjórn drykkjarframleiðandans frá árinu 2009.