Rúmlega 68,5 milljarða króna seljendalán sem Seðlabanki Íslands veitti þegar hann seldi danska bankann FIH er í miklu uppnámi. Seljendalánið er bundið því að gengi skartgripaframleiðandans Pandora haldist hátt, að FIH haldi áfram rekstri og afskrifi sem minnst af eignum og að nýir eigendur FIH hagnist á þeirri fjárfestingu sinni.

Bréf í Pandoru hafa fallið um 87% frá því í janúar. FIH er með lánshæfi í ruslflokki, á athugunarlista matsfyrirtækis og á enn eftir að afskrifa mikið af ónýtum lánum að mati Moody´s. Við slíkar aðstæður skilar FIH nýjum eigendum sínum engu nema tapi. Því er ljóst að virði seljendalánsins hefur hríðfallið það sem af er ári.

Vert er að taka það fram að lánið er ekki á gjalddaga fyrr en á árunum 2014 og 2015 og því er ekki útséð með endurheimtur.

Fékk helming staðgreiddan

Seðlabankinn tók veð í FIH þegar hann lánaði Kaupþingi 82,3 milljarða króna í október 2008, þremur dögum áður en bankinn féll. Þegar Seðlabankinn seldi FIH í september nam staðgreiðslan, sem greidd var fyrir, um helmingi þeirrar upphæðar.

Matsfyrirtækið Moody´s færði FIH-bankann á athugunarlista á mánudag. Í júní hafði lánshæfiseinkunn bankans verið lækkuð í Ba2 úr Ba1, sem er ruslflokkur, með neikvæðum horfum. Í rökstuðningi Moody´s segir að hratt fall hlutabréfaverðs Pandoru, sem leiddi af sér lækkun á virði eigna FIH, auki á þau vandræði sem FIH er þegar að glíma við í tengslum við að endurfjármagna skuldir sínar. Axcel III, sjóður í eigu FIH, á 57,4% hlut í Pandoru sem hann má ekki selja fyrr en í október.

FIH mun birta hálfsársuppgjör sitt í næstu viku, þann 17. ágúst. Þar munu heildaráhrif falls Pandoru á efnahagsreikning bankans birtast.

Risagjaldagar framundan

Hin vandræði FIH sem Moody´s minnist á eru þau að bankinn þarf að endurfjármagna lán og ábyrgðir á skuldabréfum sem hann fékk frá danska ríkinu upp á um 1.100 milljarða króna. Lánin og skuldabréfin eru á gjaldaga frá ágúst 2012 til júní 2013. Til að setja upphæðina í samhengi þá er endurfjármögnunarþörfin um helmingur af eignarsafni bankans í marslok 2011.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.