Matsfyrirtækið Moody's hefur horfið frá fyrri áformum sínum um að innleiða nýtt lánshæfismatskerfi fyrir flókna fjármálagjörninga sem myndi byggjast á tölum í stað bókstafa.

Fyrirtækið mun því halda áfram að veita slíkum fjármálagjörningum einkunnir á borð við „þrefalt A", segir Michael Madelain, nýráðinn framkvæmdastjóri Moody's í viðtali við Financial Times.

Hann sagði að fyrirtækið væri að bregðast við skilaboðum frá markaðnum. „Það er lítil eftirspurn eftir því að breyta einkunnaskalanum."

Könnun á viðhorfum fjárfesta hefði leitt í ljós að þeir væru tregir í taumi við að kasta fyrir róða einkunnum eins og Aaa, sagði Madelain.

Í stað þess að ráðast í uppstokkun á lánshæfismatskerfinu hyggst Moody´'s kynna til sögunnar tvo einkunnakvarða sem eiga að hjálpa fjárfestum að skilja betur gæði flókinna fjármálagjörninga.

Nýju einkunnakvarðarnir eiga að sýna hversu hratt skuldabréfavafningar geta misst hæstu lánshæfiseinkunn þegar markaðsaðstæður versna til muna á skömmum tíma.

Aðgerðir Moody's koma í kjölfar þess að hin alþjóðlegu matsfyrirtæki -- Moody's, Standard & Poor's og Fitch -- hafa legið undir ámæli frá fjárfestum og stjórnvöldum beggja vegna Atlantsála fyrir þá aðferðafræði sem fyrirtækin beittu þegar þau veittu skuldabréfavafningum, sem tryggðir voru með veði í bandarískum undirmálslánum, mjög háa lánshæfiseinkunn.

Á undanförum mánuðum hafa Moody's og önnur matsfyrirtæki þurft að lækka lánshæfiseinkunnir slíkra skuldabréfavafninga að andvirði milljarðar Bandaríkjadala. Sökum þessa hefur trúverðugleiki fyrirtækjanna beðið mikinn hnekki og sumir fjárfestar taka ekki lengur mark á einkunnakerfi þeirra.

Madelain sagði að það væri hins vegar rangt að halda því fram að ábyrgðin lægi fyrst og fremst hjá matsfyrirtækjunum þegar kæmi að því að endurheimta trúverðugleika: „Við teljum að við getum lagt okkar af mörkum til að stuðla að betri aðstæðum á mörkuðum, en það eru einnig mörg önnur skref sem fjármálageirinn þarf að stíga í sambandi við verðmat og gagnsæi".