Lánshæfismatsfyrirtækið Moody‘s hefur hækkað lánshæfiseinkunn danska bankans FIH Erhvervsbank. Einkunnin er nú D en var áður D-. Í nýju mati Moody‘s segir að Baa3 langtímaskuldaeinkunn og P-3 skammtímaskuldaeinkunn FIH séu áfram til endurskoðunar með mögulega lækkun í huga.

Hækkun á lánshæfiseinkunn FIH kemur rúmlega viku eftir að bankinn var seldur. Það var Seðlabanki Íslands sem seldi FIH en hann var áður í eigu þrotabús Kaupþings. Seðlabanki Íslands átti veð í öllu hlutafé FIH og hafði gengið að því.

Að mati Moody‘s er breyting á eignarhaldi jákvæð fyrir bankann. Fyrirtækið telur að nýir eigendur séu betur staddir til að stýra bankanum og veita honum fjárhagslegan stuðning. Endurmat á lánshæfiseinkunn endurspegli það.

Staðan enn erfið

Moody‘s bendir á að tekjustreymi, eignavirði og lausafjárstaða FIH séu enn bundnar óvissu. Bankinn skilaði hagnaði á fyrri hluta ársins. Hann nam um 417 milljónum danskra króna og er mikill viðsnúningur frá sama tímabili á síðasta ári. Þá nam tap bankans um 384 milljónum króna. Hagnaðurinn er þó enn nokkuð lágur þegar litið er til hlutfall tekna af meðaláhættusömum eignum. Þá segir í matinu að FIH treysti mikið á ríkistryggð skuldabréf við fjármögnun.