Horfur um lánsfjárhæfi íslenska bankageirans eru neikvæðar, samkvæmt nýju áliti sem Moody's gaf út í dag. Þetta endurspeglar að sögn lánshæfismatsfyrirtækisins veikari lánsfjáraðstæður innan bankageirans en einnig krefjandi viðfangsefni í tengslum við hraðan vöxt, mikla samþjöppun lánasafns, hátt hlutfall lána til tengdra aðila og áhyggjur af getu bankanna til að viðhalda tekjum sínum við núverandi markaðsaðstæður. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Moody's, Banking System Outlook for Iceland.

Þrátt fyrir neikvæðar horfur bankageirans kemur fram í skýrslunni að horfur séu stöðugar hjá öllum íslensku bönkunum þremur sem eru með lánshæfiseinkunn frá Moody's, Glitni, Kaupþingi og Landsbanka. Íbúðalánasjóður er hins vegar með neikvæðar horfur.

Moody's hefur breytt lánshæfiseinkunn sinni fyrir íslensku bankana fjórum sinnum síðast liðið ár. Lánshæfismatsfyrirtækið hefur vegna þessa sætt gagnrýni fyrir hringlandahátt, meðal annars frá erlendum greinendum.