Moody´s segir afnám fjármagnshafta hafa jákvæð áhrif á innra lánshæfi ríkissjóðs og íslensk fjármálageira.

Segir matsfyrirtækið að með að afnema að mestu fjármagnshöftin 14. mars síðastliðinn hafi verið send út skilaboð um að efnahagslífið væri komið í eðlilegt horf eftir meira en átta ár frá hruni 90% af íslensku bankakerfi.

Meiri fjárfesting erlendis

Telur Moody´s að þetta leiði til meiri beinnar fjárfestingar erlendis.

Segir í frétt matsfyrirtækisins að um 200 milljarðar, eða sem nemur 8% af vergri landsframleiðslu landsins hafi verið eftirstandandi eftir þau 22 uppboð sem Seðlabankinn hafi framkvæmt á síðustu um fimm og hálfu ári, en það hlutfall hafi verið 42% árið 2008 þegar höftin voru sett á.

Segir þar jafnframt að afnám haftanna muni draga úr því sem þeir kalla gróðurhúsaáhrif, þegar heimili, lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar neyðast til þess að beina fjárfestingum innanlands, sem hafi þrýst eignaverði upp og aukið áhættu fjárfesta vegna samþjöppunar.

Höftin ekki lengur nauðsynleg

Segja þeir að afnámið komi í kjölfar bættrar efnahagslegra og fjármálalegra skilyrða en stöðugt betri viðskiptajöfnuður, eða 8% af vergri landsframleiðslu, og hrein erlend skuldastaða, eða 1,1% af vergri landsframleiðslu í árslok 2016, hafi dregið úr þrýstingi á greiðslujöfnuð.

Því séu höftin að þeirra mati ekki lengur nauðsynleg.

Líkleg til að innleiða frekari þjóðhagsvarúðartæki

Önnur ástæða þessarar tímasetningar nú sé hve stór gjaldeyrisforði Seðlabankans sé orðinn, en fjárhæð lauss fjár í forða sé um 7,24 milljarðar í lok febrúar, sem sé fyllilega nægjanleg til að kaupa aflandskrónur og til að verjast þrýstingi á greiðslujöfnuð.

Væntir Moody´s þess jafnframt að stjórnvöld og Seðlabanki séu tilbúin að innleiða frekari þjóðhagsvarúðarráðstafanir ofan á bindiskyldu á erlenda skammtímafjárfestingu, ef nauðsynlegt reynist til þess að takmarka áhættu vegna þenslu í ferðaþjónustu.