Moodys hefur tekið lánshæfismatseinkunn Færeyja, Aa3, til athugunar. Ástæðan er sú að Evrópusambandið samþykkti fyrir fáeinum vikum að beita Færeyinga viðskiptaþvingunum vegna deilna um makríl- og síldarkvóta.

Í tilkynningu sem Moodys birtir segir að í þessari athugun verði fylgst með því hvort Evrópusambandið muni raunverulega beita Færeyinga þeim viðskiptaþvingunum sem samþykktar hafi verið og hversu alvarlegar þær þvinganir verða. Verði viðskiptaþvinganirnar víðtækar geti lánshæfismatið lækkað.

En Moodys mun einnig horfa til fjárlaga Færeyinga. Moodys segir að þörf sé á stoppa í fjárlagagat og ekki megi taka frekari lán.